Rekstur félagsins á árinu 2018 var viðunandi en rekstrarafkoma var óviðunandi. Í ytra umhverfi félagsins voru ýmsir þættir háðir sveiflum en margt í starfi þess horfði til betri vegar. Tveir af þremur nýjum ísfisktogurum félagsins hófu veiðar á árinu. Heildarafli botnfisktogara jókst og sömuleiðis afli á úthaldsdag. Þá jókst landvinnsla á botnfiski verulega í Norðurgarði vegna betri veiði samhliða innleiðingu nýrrar tækni við framleiðslu. Uppsjávarafli jókst einnig og var vinnsla hans í landi nærri því sem ráð var fyrir gert. Þá var grunnur að starfsemi félagsins breikkaður verulega með kaupum á Ögurvík ehf. þar sem kvóti á verðmætum botnfisktegundum jókst um 16% eða í 55 þúsund tonn. Á þeim grunni þarf að byggja áframhaldandi sókn félagsins.
Tekjur minnkuðu á árinu en hagnaður jókst. Rekstrarafkoman var ekki ásættanleg. Hagnaður fyrirtækisins hefur verið að minnka á síðustu árum vegna styrkingar íslenskrar krónu og hærri veiðigjalda. Á seinni hluta ársins 2018 veiktist íslenska krónan og það styrkir útflutningsfyrirtæki. Árið 1992 fjárfesti HB Grandi í sjávarútvegsfyrirtæki í Síle. Þetta fyrirtæki seldi laxeldisfyrirtæki sitt á síðasta ári og fékk HB Grandi töluverðan hagnað af þeirri sölu og skýrir það að hluta góða afkomu á síðasta ársfjórðungi 2018.
HB Grandi er sjávarútvegsfyrirtæki sem vill vera í fremstu röð. Það þýðir að á öllum sviðum er nýrri þekkingu beitt til að stuðla að umbótum og framförum. Virðing fyrir umhverfinu og lífríki sjávar er grundvallargildi í allri starfsemi félagsins. Bætt umgengni við auðlindir og umhverfi og fullnýting afla auk öryggis starfsfólks, eru helstu áherslur félagsins þegar kemur að ófjárhagslegum þáttum í rekstri þess. Á sviði umhverfis-, öryggis- og mannauðsmála hefur félagið nýtt nýjustu tækni og þekkingu til að ná yfirsýn, setja markmið og vinna skipulega að settu marki. Þar hefur mælanlegum árangri verið náð. Alvarlegum slysum til sjós hefur fækkað og þá hefur kolefnisfótspor félagsins minnkað verulega, m.a. með minni olíunotkun og markvissri flokkun úrgangs og sorps.
Hlutverk HB Granda er að hámarka á ábyrgan hátt verðmæti og arðsemi úr þeim sameiginlegu náttúruauðlindum sem félaginu er treyst fyrir. Stefna félagsins er að vera samþætt sjávarútvegsfyrirtæki í útgerð, vinnslu og sölustarfsemi sem skilar eigendum arði, starfsmönnum eftirsóknarverðu starfsumhverfi og starfar í sátt við umhverfið. Verkefni stjórnenda er að grannskoða sem flesta þætti í virðiskeðju félagsins: veiðar, vinnslu, vöruþróun, markaðssetningu, dreifingu og sölu. Þetta er gert í þeim tilgangi að skapa með sjálfbærum hætti sem mest verðmæti til skiptanna fyrir starfsfólk, eigendur og íslenskt samfélag. Sú skoðun hófst á árinu og er í fullum gangi.
Ég vil þakka öllu starfsfólki HB Granda bæði í landi og á sjó fyrir afskaplega vel unnin störf á árinu 2018. Viðskiptavinum, samherjum og stjórn félagsins vil ég þakka samstarfið.