Framtíðarsýn
Auðlind sjávar við strendur Íslands og lög um nýtingu hennar og rekstur fyrirtækja setja viðgangi félagsins skorður og því er eðlilegt að horfa í aðrar áttir þegar stefnt er að vexti
Guðmundur Kristjánsson
forstjóri HB Granda

HB Grandi er sjávarútvegsfyrirtæki sem vill vera í fremstu röð. Það þýðir að á öllum sviðum er nýrri þekkingu beitt til að stuðla að umbótum og framförum. Við þurfum því ætíð að endurskoða vinnubrögð og viðhorf til þess að sjá og skilja hvað við getum gert betur og hvernig.

Hlutverk HB Granda er að hámarka á ábyrgan hátt verðmæti og arðsemi úr þeim sameiginlegu náttúruauðlindum sem félaginu er treyst fyrir. Stefna félagsins er að vera samþætt sjávarútvegsfyrirtæki í útgerð, vinnslu og sölustarfssemi sem skilar eigendum arði, starfsmönnum eftirsóknarverðu starfsumhverfi og starfar í sátt við umhverfið. Hjá okkur er virðing fyrir umhverfinu og lífríki sjávar grundvallargildi í allri starfseminni. Ég er raunar þeirrar skoðunar að við þurfum að bera sömu virðingu fyrir öllum þáttum í virðiskeðju okkar því engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.

Í undirbúningi er endurskoðun á stefnumótun félagsins þar sem áherslur verða á einfaldan og sjálfbæran rekstur, markvissa nýtingu veiðiheimilda, vöxt og aukna arðsemi og öflugt starf á sviði markaðs- og sölumála. Auðlind sjávar við strendur Íslands og lög um nýtingu hennar og rekstur fyrirtækja setja viðgangi félagsins skorður og því er eðlilegt að horfa í aðrar áttir þegar stefnt er að vexti. Þar kemur eðlilega til greina aukið alþjóðlegt samstarf og aukið markaðsstarf sem hækkað getur verð á okkar einstöku afurðum en það kallar aftur á aukið samstarf fiskframleiðenda á Íslandi og á Norður Atlandshafi.

Þegar horft er um öxl í starfi HB Granda síðustu þrjá áratugi eða á íslenskan sjávarútveg blasa við gríðarlegar framfarir. Við höfum komist langt á stuttum tíma. Ég er bjartsýnismaður og er sannfærður um að við eigum eftir að komast enn lengra.