Samfélags­ábyrgð

Samfélagsskýrsla

HB Grandi gefur nú út í annað sinn ársskýrslu um ófjárhagslega þætti starfseminnar í samræmi við Global Reporting Initiative-viðmið (GRI G4). Meðal umfjöllunarefna eru breytingar á starfsemi félagsins á árinu, umhverfisverkefni, mannauðsmál, öryggismál og ýmis samfélagsverkefni.

Samfélagsskýrsla HB Granda fyrir árið 2018 er nú aðgengileg á rafrænu formi með því að smella á hnappinn hér fyrir ofan.


Samfélagsábyrgð

Umhverfismál, öryggi starfsfólks og fullnýting afla hefur borið hæst þegar kemur að samfélagsábyrgð félagsins.

Virðing fyrir umhverfinu og lífríki sjávar er grundvallargildi í allri starfsemi HB Granda. Lögð er áhersla á að nýta auðlindir hafsins ævinlega af virðingu og ábyrgð og fullnýta þann afla sem skip félagsins koma með að landi. Þetta er gert svo að komandi kynslóðir megi áfram njóta og nýta þá miklu auðlind sem er ríki hafsins.

Stöðug vinna er í gangi við að bæta umgengni við umhverfið. Mikið hefur verið gert í þeim tilgangi að minnka kolefnisfótspor félagsins og öðlast heildræna yfirsýn yfir umhverfisáhrif þess á stafrænan hátt en þannig er hægt að hafa betri yfirsýn yfir hvað má betur fara.

Starfsfólkið er kjölfestan í allri starfsemi HB Granda og jafnframt meginauðlind þess. Félagið er stolt af framlagi sínu til samfélagsins og þeirri félagslegu uppbyggingu sem þar á sér stað.

  • Olíunotkun félagsins hefur dregist saman frá árinu 2005 um 46%. Olíunotkun skipa hefur dregist saman um 37% og olíunotkun fiskmjölsverksmiðja um 87%.
  • Skattspor HB Granda felur í sér allar greiðslur sem félagið greiðir til ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða, auk skatta sem innheimtir eru fyrir hönd yfirvalda og skilað til þeirra. Skattspor félagsins nam samtals 5.704 milljónum króna á árinu 2018.
  • Unnið hefur verið samkvæmt öryggisstefnu HB Granda og öll slys skráð rafrænt í slysaskráningarkerfi félagsins.
  • Öryggisdagur HB Granda var haldinn í nóvember 2018.
  • Nýjar og öflugar landtengingar við rafmagn og heitt vatn, við höfnina í Reykjavík, voru teknar í notkun á árinu og nú geta allir ísfisktogarar félagsins tengst umhverfisvænni orku þegar þeir liggja við bryggju.
  • Mikill árangur hefur náðst í sorpflokkun síðustu ár og var hlutfall flokkaðs sorps á árinu 76%.
  • Notkun svartolíu hefur alfarið verið hætt.
  • Snjallgámar og snjallvogir hafa verið teknar í notkun á öllum starfsstöðvum félagsins sem streyma upplýsingum um sorpflokkun beint í umhverfisstjórnunarkerfi HB Granda.
  • Tekið var í notkun rafrænt olíustýringarkerfi þar sem hægt er að fylgjast með olíunotkun og umhverfisáhrifum skipaflotans.
  • Á fyrri hluta ársins var ákveðið að fjárfesta í sérstakri pressu sem minnkar umfang EPS frauðkassa um 95%. Nú fer þessi úrgangur til endurvinnslu erlendis.

Nánari umfjöllun má finna í samfélagsskýrslu HB Granda fyrir árið 2018.

Áhugavert að vita!
Samhliða nýjum viðlegukanti við Norðurgarð í Reykjavík voru nýjar og öflugar landtengingar fyrir rafmagn og heitt vatn teknar í notkun til skipa félagsins þegar þau liggja við bryggju.