2018 í hnotskurn

Endurnýjun skipaflota

 • Reynsla er að koma á nýju ísfiskskipin. Skip og búnaður hafa staðið undir væntingum og með tilkomu þessara nýju skipa þá hefur félagið tekið stórt stökk inn í framtíðina.
 • Í byrjun árs fór ísfisktogarinn Akurey AK í sína fyrstu veiðiferð eftir að millidekki var komið fyrir og sjálfvirkt lestarkerfi sett í skipið frá Skaganum3X á Akranesi.
 • Í upphafi árs hófst hið daglega eftirlit HB Granda með nýsmíði frystitogarans á Spáni sem mun standa út smíðatímann. Farið var yfir ýmsa hluti er varða smíðavinnuna og staðan tekin reglulega á verkinu.
 • Ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson AK kom úr sinni síðustu veiðiferð fyrir HB Granda í lok janúar. Þar með er farsælum ferli skipsins undir merkjum HB Granda lokið og mun nýja ísfiskskipið Akurey AK leysa Sturlaug af hólmi.
 • Um mitt ár kom Ottó N. Þorláksson RE úr sinni síðustu veiðiferð með fullfermi. Þetta mikla aflaskip fer nú úr rekstri félagsins en í stað þess kemur þriðja og síðasta nýsmíðin, Viðey RE. Ísfélagið í Vestmannaeyjum keypti Ottó og mun skipið halda nafni sínu áfram hjá nýjum eigendum.
 • Í byrjun sumars fór þriðji og síðasti ísfisktorgarinn Viðey RE í sína fyrstu veiðiferð. Allt gekk að óskum og góður afli þegar í fyrstu veiðiferð.
 • Seinni hluta árs var gengið frá kaupum á félaginu Ögurvík ehf. sem gerir út Vigra RE, 2.157 tonna frystitogara sem var smíðaður í Noregi 1992. Vigri RE er eitt kvótahæsta fiskiskip íslenska fiskiskipaflotans, með 7.680 tonn af botnfiski og 1.663 tonn af makríl, á yfirstandandi fiskveiðiári.

Botnfiskafli

Uppsjávarafli

Breytingar á vinnslu

 • Í ársbyrjun tók Ísfiskur formlega við húsnæði HB Granda, við Bárugötu 8-10 á Akranesi, þar sem fiskvinnsla félagsins var til húsa. Ísfiskur mun halda áfram fiskvinnslu í því húsnæði. Starfsemi HB Granda er þó ekki alveg lokið í húsinu þar sem Norðanfiskur mun leigja út vinnsluhúsnæði á annarri hæð.
 • Á fyrsta ársfjórðungi var tekin í notkun ný og fullkominn pökkunarstöð í Ísbirninum, frystigeymslu félagsins, fyrir frystar afurðir.
 • Nýr viðlegukantur var tekinn í notkun um mitt ár við fiskvinnsluhúsnæði félagsins við Norðurgarð í Reykjavík. Fyrir var gömul trébryggja sem komin var vel til ára sinna.
 • Stærri og aðgengilegri hráefnismóttaka, við nýjan hráefniskæli sem tekin var í notkun 2017, stórbætir nú alla aðstöðu til löndunar, samhliða nýjum viðlegukanti.
 • Á seinni hluta ársins var tekin ákvörðun um að fara í endurskipulagningu á rekstri botnfiskvinnslu félagsins á Vopnafirði. Áfram er stefnt að því að hafa starfsemi á Vopnafirði á milli vertíða en verið er að skoða hvernig best er að haga henni.
Áhugavert að vita!
HB Grandi og Norðanfiskur hættu alfarið urðun á frauðplasti á árinu með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Þess í stað er nú allt frauðplast pressað um 95% og er fyrsti gámurinn tilbúinn til útflutnings. Magnið er 6,5 tonn af endurvinnanlegu hráefni.